Fjallgöngur sem heilsurækt?

Tvímælalaust! Fjallgöngur er svo miklu meira en eingöngu það að ganga á fjöll. Með því að stunda fjallgöngur erum við að efla líkamlegt þok og styrk. Að auki er óhætt að segja að andleg líðan batni því að ekkert er betra en að komast burt frá erli dagsins og út í ferskt fjallaloftið og græna náttúru, fjarri ys og þys, og upplifa fegurð landsins okkar. Allir koma endurnærðir til baka, bæði á líkama og sál.

Við áreynslu eins og að ganga á fjöll leysist úr læðingi orka sem kallar fram endorfínáhrif sem er vellíðunarhormón líkamans. Og það eru fleiri lífeðlisfræðilegir þættir sem fjallgöngur hafa áhrif á, fyrir utan þol og styrktaraukningu, þá hefur tauga- og vöðvaáreiti þau áhrif að liðir styrkjast og verða stöðugri og þetta hefur áhrif um allan líkamann! Að auki er lagt upp með góðar teygjur í lok allra gönguferða og þannig viðhöldum við og aukum liðleika eins og hægt er. Þetta hefur jákvæð áhrif á líkamlegt atgervi og almenn vellíðan eykst. Þú finnur muninn fljótt!

Margir hafa eflaust horft til fjalla og langað að komast á toppinn, en annaðhvort ekki haft trú á því að geta það eða eru bara ekki lagðir af stað í þetta ferðalag. En allar ferðir hefjast á fyrsta skrefinu og svo er það ósköp einföld framkvæmd að færa annan fótinn fram fyrir hinn þar til komið er á leiðarenda. Ekki flókið, en krefst vilja og áhuga. Þol og styrkur aukast síðan með hverju fjallinu sem sigrast verður á og við erum tilbúin í meiri áskoranir.

Að upplifa náttúrfegurð landsins okkar mætti líkja við það að borða góðan mat,- okkur langar í meira og meira, og jafnvel enn meira. Og sumir fá aldrei nóg og það er í góðu lagi þegar um fjallgöngur er að ræða, því meira í þessu sambandi er bara betra svo lengi sem skynsemi ræður ríkjum. Með því að gera fjallgöngur að lífsstíl eykst líkamlegur styrkur til muna, þol okkar batnar og hjartavöðvinn styrkist. Aðrar líkamlegar framfarir fylgja svo í kjölfarið og heilsustig okkar batnar. Leggjum grunn að góðu lífi um ókomin ár með því að stunda fjallgöngur. Fjallavinir geta komið þér af stað. Vertu velkominn í hóp fjallavina.is!