Hver erum við?

Þórður Marelsson er jógakennari, nuddari, mannauðsstjóri og reyndur fjallakarl sem hefur stundað fjallgöngur í mörg ár. Hann hefur staðið að, skipulagt og stýrt ótal gönguferðir á Esjuna og  var upphafsmaður að eftirfarandi Esjuverkefnum;  Esjan eftir vinnu, Esjan alla daga, Esjan þvers og kruss, Esjan að hausti – alveg fram að jólum, Konfekt-göngur á Esjuna og Páskaeggjagöngur á Esjuna. Einnig hefur hann skipulagt ófáar gönguferðir yfir Laugaveginn og Fimmvörðuhálsinn, hjólaferðir yfir Kjöl, svo og margar aðrar sérferðir fyrir smærri og stærri hópa.  Þórður er að auki meðlimur í björgunarsveitinni Kyndli Mosfellsbæ.

Fríða Halldórsdóttir er íþrótta- og heilsufræðingur. Hún hefur gengið á fjöll frá barnæsku og gerir enn. Hún hefur ásamt Þórði tekið að sér undirbúning, skipulagningu  og fararstjórn í ýmsum fjallaverkefnum á ársgrundvelli, bæði stórum og smáum og leitt fjölbreytta aldurshópa allt frá leikskólabörnum á fjöll.  Þá hefur hún ásamt Þórði lagt grunn að skipulögðum  barna- og fjölskylduferðir yfir Laugaveginn  eftir að hafa gengið með yngstu börnin sín þrjú Laugaveginn árið 2006.

Saman hafa þau Þórður og Fríða gengið með börnin sín fimm all víða svo sem  farið ófáar ferðir yfir Laugaveginn og Fimmvörðuhálsinn, gengið frá Snæfelli í Lónsöræfi, Svalvogahringinn á Vestfjörðum, ófá fjöll á Austfjörðum, um Þórsmörkina, Húsafell og mörg önnur fjöll. Hjólreiðar eru að auki bæði áhugamál og samgöngutæki þeirra, en þau hafa hjólað talsvert með fjölskylduna hérlendis og einnig erlendis.

Útivist er þeirra áhugamál og heilsuefling, en markmið Fjallavina er einmitt að leiða fólk á fjöll í skemmtilegum heilsubætandi fjallgöngum. Lögð er áhersla á að upplifa náttúru landsins og njóta samveru við annað áhugasamt fólk um útivist og ferðalög. Jóga, leikjum og nuddi er fléttað inn í verkefnin og áhersla er lögð á teygjur og slökun þegar því verður við komið, svo og heilsu og næringu.

Fararstjórar Fjallavina

Auk Þórðar og Fríðu eru þrír aðrir fararstjórar svo það er valinn maður í hverju horni,  en það eru þeir Bjarni Kr. Grímsson, Jósef Hrafn Þrastarson og  Sigurbjörn Úlfarsson sem hafa ekki síður endalausan áhuga á fjallamennsku og margþætta reynslu og þekkingu á útivist og fjallaferðum.

Bjarni Kr. Grímsson er heilsuhagfræðingur sem hefur gengið á óteljandi fjöll á sínum ferli og hefur yfirgripsmikla þekkingu bæði á sögu og náttúru landsins.

Jósef H. Þrastarson hefur gengið á fjöll frá unga aldri og einnig stundað fjallaklifur og hefur gríðarlega þekkingu á staðháttum og náttúru landsins. Hann veit allt um flest öll fjöll og hefur farið oftar en oft á þau flest.

Sigurbjörn Úlfarsson er heimspekingur og fjallagarpur til margra ára og er sérfræðingur í gps tækjum. Auk þess að hafa gengið á fjölda fjalla hérlendis hefur hann einnig toppað hæsta tind Equador, Cotopaxi sem er 5.980 m hár. Hann er að auki mesti rokkari Fjallavina.