Útbúnaður

Mikilvægt er að klæða sig skynsamlega og eftir aðstæðum, en hafa ber í huga að aðstæður og veður geta breyst skyndilega og því mikilvægt að gera ráð fyrir því og hafa varabúnað í bakpokanum. Klæðist nokkrum lögum af fötum, en þrjú lög af fatnaði duga vel ef þeim er rétt raðað saman. Það er þá hlý ull innst klæða, eða flík úr gerviefni, sem fellur vel að líkamanum og heldur hita þó hún blotni, flís eða ullarpeysa sem heldur hita og myndar einangrun og svo sterkur vatns- og vindheldur klæðnaður yst klæða. Þá er einnig mikilvægt að fatnaðurinn hleypi raka frá líkamanum til að koma í veg fyrir svitamyndun. Sokkar þurfa að vera mátulegir og ná upp fyrir ökklann. Ullarsokkar eru alltaf góðir en passið að þeir krumpist ekki undir fætinum, við tábergið eða ofan á ristinni þegar komið er í skóna. Margir velja tvö sokkalög, þunna sokka nær og þykkari yfir og telja menn það koma í veg fyrir blöðrumyndun. Legghlífar eru góður kostur og koma í veg fyrir að sandur, steinar eða snjór komist ofan í skóna. Gönguskór þurfa helst að ná upp fyrir ökklann og vera með grófum sóla sem grípur vel. Gönguskór eiga hvergi að þrengja of mikið að fæti, þeir eiga að vera þægilegir og þannig að gott sé að ganga á þeim í lengri tíma. Vandið valið og gefið ykkur tíma í að finna réttu skóna, það margborgar sig.

Útbúnaður – klæðnaður

· Ullarnærföt innst klæða, síðar eða stuttar nærbuxur og nærbolur, ekki bómullarnærföt

· Flíspeysa eða ullarpeysa sem millilag

· Skel, sem er vatns og vindheld

· Göngubuxur, síðar eða stuttar eftir aðstæðum og árstíð

· Flísbuxur, eftir aðstæðum

· Skel, sem er vatns og vindheld en hleypir út raka

· Húfa, lambhúshetta, derhúfa og/eða „buff“ eftir aðstæðum

· Vettlingar, flís eða ullarvettlingar og vatnsheld skel

· Sokkar, ekki bómullarsokkar

· Legghlífar

· Gönguskór

Varaklæðnaður í bakpokann

· Sokkar

· Vettlingar

· Húfa

· Hlý utanyfirflík

 

Annar búnaður

· Höfuðljós

· Skíðagleraugu/sólgleraugu

· Göngustafir

· Kathoola broddar

· Sjúkrakit sem inniheldur verkjalyf, plástra, hælsærisplástur, vaselín, Omnitape (íþróttateip 4 cm)

· Áttaviti

· Gps staðsetningartæki

Sérútbúnaður fyrir jöklaferðir

· Jöklabroddar

· Göngubelti

· Ísöxi

· Snjóflóðaýli

· Skóflu

· Karabínur