Við erum fjallavinir

Aðeins um okkur

 

Hver erum við?

Þórður Marelsson og Fríða Halldórsdóttir eru eigendur Fjallavina sem þau stofnuðu árið 2011. Þau hafa bæði óendanlegan áhuga á heilsueflingu á fjöllum, útivist og almennt góðum og heilsusamlegum lífsstíl. 

Þórður er menntaður jógakennari, nuddari og mannauðsstjóri en áhugamál hans hafa verið og eru auk fjallamennsku fótbolti, hjólreiðar og heilsuefling. Hann hefur staðið að, skipulagt og stýrt ótal gönguferðum á Esjuna og  var upphafsmaður að eftirfarandi Esjuverkefnum;  Esjan eftir vinnu, Esjan alla daga, Esjan þvers og kruss, Esjan að hausti – alveg fram að jólum, Konfekt-göngur á Esjuna og Páskaeggjagöngur á Esjuna. Einnig hefur hann skipulagt ófáar gönguferðir yfir Laugaveginn og Fimmvörðuhálsinn, hjólaferðir yfir Kjöl, svo og margar aðrar sérferðir fyrir smærri og stærri hópa. Að auki hefur hann verið meðlimur í björgunarsveitinni Kyndli.

Fríða Halldórsdóttir er menntaður íþrótta- og heilsufræðingur og hefur starfað sem íþróttakennari til margra ára. Hún hefur gengið á fjöll frá barnæsku og gerir enn. Þau Þórður hafa tekið að sér undirbúning, skipulagningu  og fararstjórn í ýmsum fjallaverkefnum á ársgrundvelli, bæði stórum og smáum og leitt alla aldurshópa á fjöll, allt frá leikskólabörnum.  Þá hefur hún ásamt Þórði lagt grunn að skipulögðum  barna- og fjölskylduferðum yfir Laugaveginn eftir að hafa gengið Laugaveginn með yngstu börnin sín þrjú árið 2006. Að auki hefur hún verið meðlimur í björgunarsveitinni Kyndli.

Saman hafa þau Þórður og Fríða gengið með öll sín börn all víða, svo sem farið ófáar ferðir yfir Laugaveginn og Fimmvörðuhálsinn, gengið frá Snæfelli í Lónsöræfi, Svalvogahringinn á Vestfjörðum, ófá fjöll á Austfjörðum, um Þórsmörkina, Húsafell og nágrenni, fjölmörg fell og fjöll á suðvesturhorni landsins svo og á sunnanverðu landinu. Hjólreiðar eru að auki bæði áhugamál og hafa verið samgöngutæki þeirra, en þau hafa hjólað talsvert með fjölskylduna hérlendis og einnig erlendis.

Heilsuefling á fjöllum ásamt útivist er er eitt helsta áhugamál þeirra, en markmið Fjallavina er einmitt að leiða fólk á fjöll í skemmtilegum heilsubætandi fjallgöngum. Lögð er áhersla á að upplifa náttúru landsins og njóta samveru við annað áhugasamt fólk um útivist og fjallgöngur. Jóga, leikjum og nuddi er fléttað inn í verkefnin og áhersla er lögð á teygjur og slökun þegar því verður við komið, svo og heilsu og næringu.

Fararstjórar Fjallavina

Auk Þórðar og Fríðu eru aðallega fjórir aðrir fararstjórar en það eru þau; Bjarni Kr. Grímsson, Arnar Egilsson, Erla Kristín Birgisdóttir og Sigurbjörn Úlfarsson sem hafa ekki síður endalausan áhuga á fjallamennsku og margþætta reynslu og þekkingu á útivist og fjallaferðum.

Bjarni Kr. Grímsson er heilsuhagfræðingur og fjölbreytta reynslu á mörgum sviðum. Hann hefur til margra ára gengið á óteljandi fjöll á sínum ferli og hefur yfirgripsmikla þekkingu bæði á sögu og náttúru landsins. Bjarni hefur verið með okkur Fjallavinum frá upphafi, einstaklega traustur og reynslumikill fararstjóri.

Arnar Egilsson er tölvuður, fæddur og uppalinn í sveit allra sveita sem er Mývatnssveitin sjálf, en hefur þó aldrei farið í Grjótagjá! Ungur að árum byrjaði hann í ungliðasveit Björgunarsveitarinnar Stefáns. Arnar hefur gengið með Fjallavinum síðastliðin þrjú ár þegar hann kom sterkur inn sem einn af fararstjórum okkar. Hann hefur góða þekkingu á landi og sögu og óendanlegan áhuga á fjallamennsku.

Erla Kristín Birgisdóttir er hugbúnaðarsérfræðingur og hefur gengið með Fjallavinum í fjölda mörg ár. Hún veit fátt betra en að vera á fjöllum en er auk þess mikil ævintýramanneskja . Hún er virkur meðlimur í Björgunarsveit Hafnarfjarðar.

Sigurbjörn Úlfarsson er heimspekingur, framkvæmdastjóri og fjallagarpur til margra ára og hefur yfirgripsmikla þekkingu á fjöllum landsins. Hann er jafnframt sérfræðingur á hvers konar tækjum. Auk þess að hafa gengið á fjölda fjalla hérlendis hefur hann einnig toppað næst hæsta tind Equador, Cotopaxi sem er 5.980 m hár.  Bjössi er í björgunarsveitinni Dagrenningi á Hólmavík. Þá er hann einnig mesti rokkari Fjallavina.