Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Hvannadalshnúkur 2110 m fyrir 70 ára

maí 6, 2023

Free

Hvannadalshnúkur 2110 m

Þessi ferð er ætluð fyrir hörkuduglegt göngufólk 70 ára og eldri sem er í góðu formi! Drífum í þessu!

Við vitum að þarna býr reynsla, þrautsegja, kraftur og þor. Þátttakendur þurfa að vera í góðu gönguformi. Við mælum með undirbúningsverkefnum á fjöllum svo sem Fjöllin okkar 2023 sem hefst í lok janúar.

Horft verður til veðurs í maí og stokkið af stað þegar veðurútlit er sem best svo dagsetning er óljós enn sem komið er.

Ganga á Hvannadalshnúk er einstök upplifun í alla staði og hæsta markmið okkar hérlendis enda hæsti tindur Íslands!

Ferðatilhögun fyrir Hvannadalshnúk.

Við munum hefja gönguna á tímabilinu 02:00-05:00 aðfararnótt laugardagsins. Þetta ræðst af veðurspá og veðri sem skýrist þegar nær dregur. Því er mikilvægt að vera kominn austur snemma á föstudeginum og geta hvílt sig, sofið og undirbúið nesti tímanlega. Varðandi hvíld/svefn er rétt að benda á þarna munum við óhjákvæmilega heyra jarm í rollum nánast við tjalddyrnar/húsdyrnar, svo rétt er að vera með eyrnartappa til að reyna að útloka þá truflun, því þó við séum nokkuð vön umferðarnið borgarinnar þá er ekki víst að við venjumst þessum sveitatónleikum strax. Mikilvægt er að borða góðan morgunmat fyrir gönguna, og mælum við með hafragraut, banana og ávaxtasafa eða álíka.

Við upphafsstað göngunnar undir Sandfelli þurfa allir að vera mættir tímanlega skv fyrirmælum og klárir í bátana, klæddir og með allan sinn búnað vel skipulagðan í bakpoka og utaná bakpoka. Farið því vel yfir útbúnað áður en lagt er af stað úr Reykjavík. Ekki gleyma jöklabúnaði! Við förum af stað um nótt eða undir morgun og þá er yfirleitt kalt. Verum eins léttklædd og hægt er, kaldstart er gott, því okkur hitnar um leið og við leggjum af stað upp nokkuð brattar hlíðar. Eins hækkar hitastig þegar dagur rís en aftur kólnar þegar ofar er komið og á toppnum er yfirleitt ekki hlýtt þó lofthiti við sjávarmál sé töluvert. Sjaldan er logn á toppnum! Mikilvægt er að hafa narsl og  drykkjarbrúsa innan seilingar og geta sopið á reglulega án mikillar fyrirhafnar án þess að þurfa að taka af sér bakpokann.

Við göngum svo af stað upp frekar brattar brekkur Sandfellsleið, á einstigi og þar munum við fara fetið. Fyrsta stopp verður við læk í um 350 m hæð og þar rennur ótrúlega gott og ferskt fjallavatnið og þar skal fyllt á brúsa. Annað stopp verður í um 700 m og þar tökum við stutt nestisstopp. Þaðan er haldið upp á jökulröndina,  þriðja stopp er því í um 1100 m hæð. Þá er kominn matartími, og að honum loknum verður hópunum skipt upp í ca 6 manna hópa. Þar setja menn á sig göngubelti og eru svo festir í línu. Eftir það gengur hver hópur sem einn maður/kona og hagar sér sem slíkur!

Línustjórar munu þá fara yfir reglur, öryggismál og hegðun göngumanna í línum, en mikilvægt er að göngumenn fari í einu og öllu eftir þessum fyrirmælum. Þá er gengið áfram upp eftir langri brekku með nokkuð jöfnum og dágóðum halla næstu tæpa 4 km, en þetta er brekkan endalausa og hér reynir á þolinmæðina þar til við náum ca 1800 m hæð og komin upp á öskjubrúnina. Þá er stutt nestisstopp og þar er gjarnan reist sérstakt jökla-wc. Ef aðstæður leyfa er hægt að losa sig úr línu, annars ekki. Svo er haldið af stað yfir öskju Öræfajökuls og að rótum Hvannadalshnjúks, ca 2 km ganga,  og þá er síðasta stopp fyrir lokahnykkinn en þá erum við í ca 2000 m hæð. Þarna setjum við á okkur broddana, mundum ísöxina og göngum upp síðasta legginn. Hér er komið að bröttustu brekkunni sem jafnframt er vel krefjandi og víða sprungin. Hér þarf að fara með gát og nota ísöxina í hverju skrefi. Þetta er ekki nema um 200 m hækkun og þá stutt eftir á toppinn. Við munum ekki dvelja lengi á toppnum en allt ræðst það eftir aðstæðum og veðri. Síðan er haldið niður aftur, broddar teknir af við bækistöðvarnar og sama  leið haldin til baka, með tilheyrandi stoppum. Úr línum losnar fólk svo við jökulröndina og þaðan er haldið áfram niður, en mikilvægt er að halda hópinn alla leið.

Rétt er að benda á að þó gangan sjálf sé ekki sú erfiðasta, því hægt er farið, þá er hún afar löng og krefst verulegs úthalds. Leiðin niður getur tekið verulega á. Þegar á toppinn er komið erum við bara hálfnuð og  sama vegalengd eftir niðurá við. Hún reynist mörgum erfiðari en uppleiðin því þá er þreyta farin að segja til sín, lærin búin og hné orðin aum. Snjóbráð er oft orðið mikið og færðin því þung. Þetta má ekki vanmeta.Talið er að þetta sé lengsta dagsganga í Evrópu frá sjávarmáli að toppi, með mestri hækkun á einum degi, athugið það!  Þess vegna er nauðsynlegt að vera kominn í verulega gott gönguform og mælum við með reglulegum gönguferðum á fjöll. Gott er t.d. að prófa sig með því að fara tvisvar sinnum upp Esjuna í röð,  en þá er hæðinni tæplega náð og ca tæpum helming göngutímans og svo meta sjálfan sig út frá því. Ef fólk er óvisst um líkamlegt ástand sitt (hjarta- og blóðþrýsting) er mikilvægt að fá mat læknis og grænt ljós frá honum.

Á leið upp þegar komið er í 1100 m hæð metur yfirfararstjóri göngumenn og getu þeirra til aðhalda áfram. Oft kemur fyrir að fólki er snúið við vegna getu, þreytu eða veikinda og þá er það gert þarna áður en fólk fer í línur. Því er þá fylgt niður af fararstjóra. Að öllu jöfnu þarf fólk sem er hraust ekki að hafa áhyggjur að þynnra lofti í þessum hæðum, nema það sé mjög viðkvæmt fyrir því, það er yfirleitt ekki farið að hafa veruleg áhrif fyrr en í yfir 3000m hæð.

Eftir göngu dagsins er kjörið að gleðjast enn frekar saman eftir afrek dagsins og borða saman góða máltíð enda flestir orðnir hungraðir í góðan mat.

Svo mælum við með góðri hvíld eftir afrek dagsins!

Breytingar vegna aðstæðna og veðurs: Við munum fyrst og fremst horfa til veðurs og aðstæðna á svæðinu, en ganga á Hvannadalshnúk kallar á góðar aðstæður. Þess vegna áskiljum við okkur rétt til að gera breytingar og hnika ferðinni í samræmi við það til að göngufólk fái sem mest út úr göngunni. Sunnudagur er því alltaf varadagur og mikilvægt að göngufólk geri ráðstafanir vegna þess.

Hæð: 2110 m

Gönguvegalengd: 25 km

Göngutími: 13-15 klst

Gönguhækkun: 2000 m

Sérstakur útbúnaður: Jöklabúnaður; ísöxi, klifurbelti með CE merktri karabínu og jöklabroddar. Þennan búnað er hægt að leigja hjá helstu útivistarverslunum.

Bröttför: Á bilinu 02:00-05:00 frá Sandfelli

Gisting: Á eigin vegum í Öræfum

Erfiðleikastig: 4 skór

Verð: 35.000,- kr

Staðfestingargjald: 15.000,- kr

Ferð fullgreidd fyrir: 1.apríl 2023

kt: 531184-0849

0111-26-501696

Sjá skilmála hér

Þegar staðfestingargjaldið hefur verið greitt, býðst þátttakendum að taka æfingagöngur með okkur alla fimmtudaga að Steini frá 2.febrúar og fram til 30.mars. Einnig býðst þeim að ganga með  Fjallavinum á Helgafell í Hafnarfirði alla mánudaga í mars.

Details

Date:
maí 6, 2023
Cost:
Free
Event Category:
Event Tags:
, ,

Organizer

Þórður Ingi Marelsson
Phone
8987350
Email
thordur@fjallavinir.is