Tveggja daga göngugleði í Básum og Mörkinni
Goðaland og Þórsmörkin eru með fallegri stöðum á landinu. Í raun paradís útivistarmanneskjunnar enda fjölmargar gönguleiðir um margbreytilega náttúru. Birkivaxnar hlíðar og gil, þar sem jöklar og árfarvegir hafa mótað landið með margskonar kynjamyndum allt um kring gerir þetta svæði svo magnað. Á þessum árstíma má búast við að haustlitir fari að setja svip sinn á gróðurinn. Þarna er ætlunin að næra líkama og sál, njóta tveggja göngudaga með gistingu í Básum og eiga góðar stundir með góðum fjallavinum. Gist verður í skála Útivistar í tvær nætur og gengið verður bæði laugardag og sunnudag. Á laugardegi verður boðið upp á tvær leiðir, annarsvegar leið A sem er hringur um Hvannárgil, Heljarkamb og upp á Morinsheiði og þaðan á Útigönguhöfða ef aðstæður leyfa, annars áfram á Heiðarhornið og niður í Strákagil. Hins vegar léttari ganga leið B, Tindfjallahringinn þar sem gengið verður um fallega Slyppugilið, upp á Tindfjallasléttuna, niður um Stangarháls og inn í Bása sem er léttari ganga. Gisting ásamt kvöldmat á föstudegi, grillmáltíð á laugardegi, rútu og fararstjórn er innifalið í verðinu.